RÁÐGJAFASÍMINN
533 10 88
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
Innkaupakerra
Fréttir & Viðburðir

Tónar fyrir sálina

22/11/2017

Þann 20. september síðastliðinn blésu hjónin Bergdís Eysteinsdóttir og Haraldur Haraldsson til söfnunar undir heitinu Tónar fyrir sálina. Söfnunin gengur út á að taka á móti notuðum og nýjum Ipod Shuffle tónlistaspilurum, heyrnartólum og hleðslutækjum sem síðan eru gefnir fólki með heilabilun sem býr á hjúkrunarheimilum. Hjónin setja gömlu góðu íslensku lögin á spilarana sem og uppáhalds tónlist hvers og eins ef mögulegt er. 

 

Söfnunin vakti strax mikla athygli í fjölmiðlum og í kjölfarið bárust margar gjafir frá einstaklingum. Fyrirtækin Margt Smátt og Pfaff sendu rausnarlegt framlag með nýjum heyrnartólum. Margir af tónspilurunum sem bárust voru komnir til ára sinna og rafhlöður og virkni var því miður ekki lagi. Á þessum stutta tíma hefur fengist sú reynsla að spilarar frá Apple; Ipod Shuffle sem eru einfaldir, skjálausir spilarar henta best í verkefnið. Því var ákveðið að sækja um samfélagsstyrki frá fyrirtækjum til að fjármagna kaup á nýjum spilurum.

 

Til að hjálpa við þessa söfnun hafa Alzheimersamtökin stofnað bankareikning sem samtökin munu hafa umsjón með. Öll framlög fara síðan til kaupa á nýjum tækjum fyrir söfnunina. 

Reikningur söfnunarinnar er 0515-14-408932,  kt. 580690-2389. Á Facebook síðu söfnunarinnar Tónar fyrir sálina verður síðan hægt að fylgjast með þegar tækin berast og hvert þau fara.  

 

Kveikjan að söfnuninni, Tónar fyrir sálina á sína rætur að rekja til átaksins Alive Inside sem hefur verið í gangi síðan 2014 í Bandaríkjunum og hefur einnig náð fótfestu víða í Evrópu. Átakið hófst þegar heimildarmyndin Alive Inside kom út og hlaut verðlaun á Sundance Film Festival árið 2014. Þeir sem vilja kynna sér þessa mögnuðu kvikmynd eru hvattir til þess að skoða heimasíðuna með því að smella hér.

 

Þar er fylgst með fagaðilum sýna á vísindalegan hátt hvernig tónstöðvar heilans eru með því síðasta sem dofna hjá fólki með Alzheimer og aðra heilabilunarsjúkdóma. Með tónlistinni einni og sér er sýnt hvernig hún framkallar guðdómleg áhrif á íbúa og þar skiptir mestu að tónlistin höfði til einstaklingsins. Jákvæðar minningar úr æsku framkallast, endurupplifun tíma æskunnar og aðrar jákvæðar minningar streyma fram. Oft eru það minningar sem aðstandendur héldu að væru löngu horfnar.

 

Aðstandendur söfnunarinnar hér Íslandi, Tónar fyrir sálina hafa sömu sögu að segja og hafa þannig flestir íbúar Roðasala hjúkrunarheimilis í Kópavogi nú þegar fengið spilara til eignar. Starfsmenn eru þar til vitnis um mátt tónlistarinnar og koma spilararnir sér sérstaklega vel þegar depurð, kvíði eða óróleiki hellist yfir. Við hvetjum alla til að halda áfram að senda tæki í söfnunina og þá sem geta að senda frjáls framlög á bankareikninginn sem nú hefur verið stofnaður.

 

Fyrir hönd Tóna fyrir sálina; 

 

Bergdís Eysteinsdóttir

Haraldur Haraldsson

Baugakór 10

203 Kópavogur

 

Alzheimersamtökin á Húsavík

20/11/2017

Fimmtudaginn 16. nóvember síðastliðinn lagði fræðslustjóri Alzheimersamtakanna Sirrý Sif Sigurlaugardóttir félagsráðgjafi land undir fót og flaug til Húsavíkur. 

 

HSN á Húsavík og Hvammur hjúkrunarheimili óskuðu eftir fræðslu fyrir starfsfólk sitt um samskipti við fólk með heilabilun. Sama fræðsluerindið var flutt tvisvar svo sem flestir hefðu tök á að mæta. Fyrst kl.13:00 og aftur kl.14:00. Mætingin var afar góð en alls tóku 73 starfsmenn þátt. 

 

Um kvöldið var svo opinn fræðslufundur í salnum í Miðhvammi. Þar var starfsemi Alzheimersamtakanna kynnt og áhugsamir gátu spjallað við fræðslustjórann bæði fyrir og eftir fundinn. Um 50 gestir komu á fundinn sem tókst vel. Góðar umræður sköpuðust og áhugi Húsvíkinga á málefnum fólks með heilabilun var greinilegur. Strax komu fram óskir um að samtökin kæmu fljótlega aftur með meiri fræðslu og jafnvel ráðgjöf fyrir þá sem á þurfa að halda. 

 

Við þetta tækifæri voru tveir nýir tenglar jafnframt boðnir velkomnir í þétt net sjálfboðaliða sem starfar fyrir hönd samtakanna um land allt. Þær Elín Ívarsdóttir sjúkraliði í heimahjúkrun og Anna Lára Finnsdóttir sem átti móður með Alzheimer eru nú formlega orðnar tenglar á Húsavík og í nærsveitum. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar í hópinn og hlökkum til að vinna með þeim í framtíðinni. 

 

Við þökkum Húsvíkingum kærlega fyrir góðar móttökur og þá sérstaklega Elínu Ívarsdóttur og Jóhönnu S. Kristjánsdóttur hjúkrunarfræðingi á HSN fyrir alla aðstoðina. 

 

 

Nýir tenglar á Akranesi

15/11/2017

Nýir tenglar Alzheimersamtakanna á Akranesi tóku formlega við hlutverki sínu í dag. Laufey Jónsdóttir þroskaþjálfi og verkefnastjóri í heimaþjónustu hjá Akraneskaupstað er fulltrúi fagaðila og Heiðrún Janusardóttir fulltrúi aðstandenda. Hlutverk tengla er að vinna að markmiðum Alzheimersamtakanna í sínu nærumhverfi, opna umræðu um heilabilunarsjúkdóma og aðstoða þá sem til þeirra leita. Þeir hafa greiðan aðgang að þeirri þekkingu sem starfsfólk samtakanna býr yfir og taka virkan þátt í að miðla henni áfram. 

 

Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar í hópinn og hlökkum til að vinna með þeim. 

 

Fyrsti opni fræðslufundur Alzheimersamtakanna sem þær taka þátt í að skipuleggja sem tenglar verður fimmtudaginn 8. febrúar næstkomandi. Nánari tíma- og staðsetning verður auglýst þegar nær dregur. 

Nóvemberkaffi í Reykjavík

09/11/2017

Þriðja Alzheimerkaffi vetrarins í Reykjavík var haldið fimmtudaginn 2. nóvember í félagsmiðstöðinni Hæðargarði 31. Fyrirlesari dagsins var Guðný Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir úr Vestmannaeyjum. Hún er jafnframt tengiliður Alzheimersamtakanna þar og einn stofnenda Alzheimer stuðningsfélags Vestmannaeyja. Hún sagði frá starfseminni í Eyjum og tilurð félagsins þar. 

 

Rúmlega 20 gestir sóttu kaffið og voru þeir sérstaklega ánægðir með hnallþóruna sem 17 sortir höfðu gefið á kaffið. Alla píanisti spilaði undir í fjöldasöng síðasta hálftímann og allir tóku vel undir. 

 

Næsta kaffi verður Jóla-Alzheimerkaffi þann 7. desember næstkomandi. Við vonumst til að sjá sem flesta. 

28
nóv

Samverustund að kvöldi

28/11/2017
kl. 19:30 - 21:00

Staðsetning

Hátúni 10, 105 Reykjavík

Tími

Kl. 19:30 - 21:00

Stutt lýsing

Mánaðarlegar samverustundir að degi fyrir aðstandendur fólks með heilabilun.

Aðstandendur eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en á það sameiginlegt að eiga ástvin heima, í dagþjálfun eða á hjúkrunarheimili.

Markmiðið með samverunni er að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu.

 

Allir aðstandendur fólks með heilabilun eru hvattir til að koma og spjalla. Ekki þarf að skrá sig og aðgangur er ókeypis.

30
nóv

Alzheimer kaffi á Akureyri

30/11/2017
kl. 17:00

Staðsetning

Hlíð hjúkrunarheimili, Austurbyggð 17 á Akureyri

Tími

Kl. 17:00

Stutt lýsing

Alzheimerkaffi á Akureyri 30. nóvember næstkomandi. 

Allir velkomnir, aðgangseyrir 500 kr. 

Nánari dagskrá auglýst síðar. 

07
des

Alzheimer kaffi í Reykjavík

07/12/2017
kl. 17:00 - 18:30

Staðsetning

Félagsmiðstöðin Hæðargarði 31, 108 Reykjavík

Tími

Kl. 17:00 - 18:30

Stutt lýsing

Spjall - fræðsla - kaffi/meðlæti - söngur m/undirleik.
Aðgangseyrir 500 kr. kaffi innifalið.
Ekki þarf að skrá sig bara mæta á staðinn.

12
des

Fræðslufundur

12/12/2017
kl. 16:30 - 17:30

Staðsetning

Hátúni 10, 105 Reykjavík

Tími

Kl. 16:30 - 17:30

Stutt lýsing

Ólína Kristín Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og forstöðukona í Maríuhúsi segir frá sérhæfðum dagþjálfunum fyrir fólk með heilabilun og hverjum þær eru helst ætlaðar. 

 

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis og heitt á könnunni. 

VEFTRÉ
W:
H: