RÁÐGJAFASÍMINN
533 10 88
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
Innkaupakerra
Fréttir & Viðburðir

Reykjavíkurmaraþon 2017

22/08/2017

Laugardaginn 19. ágúst síðastliðinn fór Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fram í 34. sinn. Skráðir þátttakendur í hlaupið í ár voru 14.390 og söfnuðu 4.649 þeirra áheitum á hlaupastyrkur.is. Erlendir hlauparar voru um 4000 talsins frá 87 löndum og tóku tæplega 260 þeirra þátt í söfnuninni segir á vef Reykjavíkurmaraþons. 

 

Frá árinu 2007 hafa þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka getað hlaupið til styrktar góðu málefni. Tugir miljóna hafa safnast til á annað hundrað góðgerðafélaga í tengslum við hlaupið. Upphæðirnar smáar sem stórar hafa skipt félögin miklu máli og verið notaðar í mörg þörf verkefni.

 

Í ár völdu 213 hlauparar að hlaupa til góðs fyrir Alzheimersamtökin sem er metfjöldi. Met var líka slegið í áheitasöfnun en þegar þetta er skrifað hafa safnast 4.085.415 krónur og enn hægt að heita á hlaupara. Áheitasíðan Hlaupastyrkur.is verður opin út daginn í dag ef einhverjir eiga eftir að heita á sinn hlaupara. 

 

Hlaupið í ár markaði líka tímamót að því leyti að nú hljóp Stefán Hrafnkelsson fyrir samtökin. Hann greindist nýlega með Alzheimer aðeins 59 ára að aldri. Stefán og fjölskylda hans mynduðu hlaupahópinn Gleymum ekki gleðinni og hafa safnað yfir 600.000 krónum. Fjallað var um hlaupahópinn í kvöldfréttum Stöðvar 2 á laugardaginn, smellið hér til að horfa á fréttina. 

 

Við erum gríðarlega þakklát öllum þeim sem tóku sér tíma til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu með okkur á einn eða anna hátt. Hvort sem það var að hlaupa til góðs, heita á hlaupara, koma við á sýningarbásnum okkar á Skráningarhátíðinni í Laugardalshöll eða vera með okkur á hvatningarstöðinni á hlaupadeginum sjálfum. TAKK! 

 

Til að slá botninn í hlaupahátíðina í ár verðum við með Uppskeruhátíð hlaupara fimmtudaginn 24. ágúst næstkomandi í Hásalnum hér í Hátúni 10 og portinu þar bak við. Þar munum við grilla pylsur, borða smá nammi og eiga góða stund saman til að fagna glæsilegum árangri. Það má skrá sig á viðburðinn hér. 

Vel sótt hvatningarhátíð

17/08/2017

Í gær, miðvikudaginn 16. ágúst 2017 fór í annað sinn fram móttaka fyrir hlaupara hjá Alzheimersamtökunum. Samtökin bjóða öllum þeim sem ætla að hlaupa til góðs í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á laugardaginn næsta til smá hvatningarhátíðar til að komast í gír fyrir hlaupið. Um 30 manns lögðu leið sína í Hátúnið í gær. Á dagskrá var kynning á starfsemi samtakanna og fyrirlestur frá reyndum hlaupurum.

 

Sirrý Sif Sigurlaugardóttir fræðslu- og verkefnastjóri samtakanna sagði frá starfsemi þeirra og þýðingu þess að sífellt fleiri velji að hlaupa undir merkjum samtakanna í Reykjavíkurmaraþoninu. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 200 hlauparar valið Alzheimersamtökin til að hlaupa fyrir og söfnunin komin í rúmar tvær milljónir. Það má fylgjast með á hlaupastyrkur.is 

 

Feðgarnir og hlaupagarparnir Þorkell Stefánsson og Stefán Gíslason héldu svo fyrirlestur um hagnýt atriði sem hafa þarf í huga þegar tekið er þátt í keppnishlaupi. Þorkell er spretthlaupari og þjálfari hjá ÍR en Stefán vill kalla sig fjallvegahlaupara. Hvorugur þeirra vildi gangast við því að vera ofurhlaupari þó báðir hafi hlaupið maraþon og Stefán allt að 80 km í einu og sama hlaupinu, sér til skemmtunar. Þeir vöktu mikla lukku og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir komuna. 

 

Við minnum á að hlauparar geta nálgast hlaupaboli hjá okkur á Skráningarhátíðinni í Laugardalshöll í dag og á morgun. Sjá dagskrá með því að smella hér Fit & Run Expo 2017. 

 

Ósóttur vinningur í Maríuhúsi

10/07/2017

Enn er ósóttur vinningur í happdrætti starfsfólks Maríuhúss.  Þetta er aðalvinningurinn og því leiðinlegt ef hann gengur ekki út. 
Það er gisting fyrir 2 í heimagistingu á Miðjanesi í Reykhólahreppi og gjafabréf fyrir 2 í Þaraböðin á Reykhólum. 
Vinningsnúmerið er 1108

Vinningsins skal vitja í Maríuhúsi, Blesugróf 27, sími 534 7100  mariuhus@alzheimer.is

Sumarfrí 2017

06/07/2017

Minningarkort sem berast í gegnum vefinn verða send allt sumarfríið. 

24
ágú

Uppskeruhátíð hlaupara

24/08/2017
kl. 18:00-20:00

Staðsetning

Hátún 10, 105 Reykjavík

Tími

Kl. 18:00-20:00

Stutt lýsing

Öllum sem hlaupa undir merkjum Alzheimersamtakanna í Reykjavíkurmaraþoninu 2017 og fjölskyldum þeirra er boðið til grillveislu nokkrum dögum eftir hlaup. Með því vilja samtökin þakka hlýhuginn og gefa hlaupurum tækifæri til að gera upp gott hlaupasumar með því að koma saman, grilla pylsur og fara í leiki. Sjáumst! 

19
sep

Hittu mig í MoMA

19/09/2017
kl. 20:00

Staðsetning

Salurinn í Kópavogi

Tími

Kl. 20:00

Stutt lýsing

Francesca Rosenberg, deildarstjóri fræðsludeildar Nútímalistasafnsins (MoMA) í New York, heldur fyrirlestur um dagskrána „Meet me at MoMA“.

20
sep

Listir og menning sem meðferð: Íslensk söfn & Alzheimer

20/09/2017
kl. 13:00 - 17:00

Staðsetning

Tjarnarsalur Ráðhússins í Reykjavík og Listasafn Íslands

Tími

Kl. 13:00 - 17:00

Stutt lýsing

Málþing og smiðjur.
Tjarnarsal Ráðhússins kl. 13:00–15:00 og í Listasafni Íslands kl. 15:00–17:00

Takið dagana frá. Við hlökkum til að hitta ykkur !

Á málþinginu 20. september verður kynning á bókinni Listir og menning sem meðferð: íslensk söfn og Alzheimer. Í henni eru kynntar hugmyndir um hvernig nýta megi listir til að auka lífsgæði fólks með alzheimer og bæta og treysta samband þess við ástvini sína. Alzheimer sviptir einstaklinginn smám saman sjálfsmeðvitundinni en með hjálp lista má að einhverju leyti endurheimta hana. Myndlist og íslenskur menningararfur geta þannig virkjað hugmyndaflugið, tilfinningaminnið og getuna til að eiga í félagslegum samskiptum.

Frummælendur á málþinginu verða:
• Francesca Rosenberg deildarstjóri Fræðsludeildar MoMA-listasafnsins í New York, USA


• Jón Snædal forstöðumaður Minnismóttöku Landakots, Landspítali Íslands


• Carmen Antúnez Almagro taugasérfræðingur og forstöðumaður Minnismóttöku Háskólasjúkrahússins Virgen de la Arrixaca í Murcia á Spáni


• Javier Sánchez Merina arkitekt og dósent við arkitektadeild háskólans í Alicante á Spáni


• Sigurjón Baldur Hafsteinssona prófessor safnafræða við Háskóla Íslands


• Halldóra Arnardóttir, listfræðingur, stjórnandi verkefnisins og ritstjóri bókarinnar

Erindi málþingsins verða flutt í Tjarnarsal ráðhússins en síðan flytjum við okkur yfir Fríkirkjuveginn í Listasafn Íslands. Þar geta gestir tekið þátt í smiðjum sem tengjast sýningunum Fjársjóður þjóðar og Taugafold VII / Nervescape VII og leitað svara við því hvernig við skoðum listir og hluti, hvaða tengingar myndast við þá og hvernig þær myndast, í samhengi við alzheimer-sjúkdóminn. Þátttakendum verður skipt niður í hópa þannig að allir geti tekið þátt í öllum smiðjunum. Unnið verður með myndlist, arkitektúr, bókmenntir og tónlist.

Málþingið er opið starfsmönnum safna, þeim sem vinna við dagþjálfun og á dagvistunarheimilum, kennurum og nemendum á framhalds- og háskólastigi og auðvitað listamönnum úr ólíku starfsumhverfi og öðrum úr skapandi greinum.

Bókin Listir og menning sem meðferð: íslensk söfn og Alzheimer verður til sölu á málþinginu en hana verður líka hægt að kaupa í forsölu sem kynnt verður síðar. Háskólaútgáfan gefur bókina út.

Þátttaka er endurgjaldslaus, þökk sé styrktaraðilunum FÍSOS, Landspítala Íslands, Háskóla Íslands, Alzheimersamtökunum, Listaháskóla Íslands, Reykjavíkurborg og Listasafni Íslands. Skráning þátttöku er þó nauðsynleg.

Skráning á málþingið: Smellið hér. 

21
sep

Alzheimerdagurinn 2017

21/09/2017
kl. 16:30 - 18:30

Staðsetning

Grand Hótel Reykjavík

Tími

Kl. 16:30 - 18:30

Stutt lýsing

21. september er alþjóðlegi Alzheimerdagurinn. Líkt og fyrri ár munu Alzheimersamtökin standa fyrir málþingi í tilefni dagsins. Yfirskrift málþingsins í ár er Listir og heilabilun. Málþingið er hluti af Alzheimervikunni sem er samstarfsverkefni Minnismóttöku LSH og Listaháskóla Íslands. Fleiri viðburðir um listir og heilabilun verða vikuna 16.-20. september sem vera nánar auglýstir síðar. Takið dagana frá. Hlökkum til sjá ykkur. 

 

Viðburðurinn á Facebook

VEFTRÉ
W:
H: