RÁÐGJAFASÍMINN
533 10 88
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
Innkaupakerra
Fréttir & Viðburðir

Alzheimervikan

18/09/2017

Upp er runnin sannkölluð Alzheimervika. 

Dagana 19. - 21. september eru þrír viðburðir í boði fyrir fólk með heilabilun, aðstandendur þeirra, fagaðila og annað áhugafólk um heilabilunarsjúkdóma. 

 

Þriðjudag 19. september í Salnum í Kópavogi kl. 20:00 
Meet me at MoMA - Francesca Rosenberg, deildarstjóri fræðsludeildar MoMA, Nútímalistasafnsins í New York. 

 

Miðvikudag 20. september í Ráðhúsi Reykjavíkur og Listasafni Íslands kl.13:00 - 18:00

Listir og menning sem meðferð: Íslensk söfn og Alzheimer - Málþing og örsmiðjur - 

 

Fimmtudag 21. september á Grand Hótel Reykjavík kl.16:30 - 19:00

Listir og heilabilun - Málþing Alzheimersamtakanna í tilefni alþjóðlega Alzheimerdagsins 

 

 

 

RHLÖ & Alzheimer Kaffi

08/09/2017

Vetrarstarfið er komið af stað af fullum krafti hjá okkur í Alzheimersamtökunum. Í gær, fimmtudaginn 7. september var fræðslustjóri samtakanna, Sirrý Sif Sigurlaugardóttir með erindi á Landakoti sem var það fyrsta á fræðsludagskrá RHLÖ í vetur. Fyrir áhugasama stendur RHLÖ fyrir Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum. Með því að smella á nafnið má kynna sér starfsemi hennar betur. 

 

Síðar um daginn var svo fyrsta Alzheimer kaffi vetrarins í Félagsmiðstöðinni Hæðargarði 31. Alzheimer kaffið verður á dagskrá í allan vetur, alltaf á sama tíma og á sama stað. Fyrsta fimmtudag hvers mánaðar klukkan 17:00 í Hæðargarði. Í gær sagði Ásta Guðmundsdóttir félagsráðgjafi á Minnismóttöku LSH á Landakoti frá hlutverki félagsráðgjafa í greiningarferlinu og því sem á eftir kemur. Við þökkum Ástu kærlega fyrir upplýsandi erindi. Að því loknu var kaffi og svo samsöngur sem allir tóku þátt í á sinn hátt. Myndir frá kaffinu má sjá með því að smella hér.  

 

Sjáum vonandi sem flesta á viðburðum okkar í vetur. 

Tímamót í Alzheimer kaffi

06/09/2017

Umsjónarmenn á Alzheimer kaffinu síðastliðin ár sendu frá sér eftirfarandi tilkynningu á Facebook síðu sinni. Við birtum hana hér með þeirra leyfi: 

 

Í janúar 2013 var Alzheimerkaffi sett á laggirnar. Stofnendur voru þær Guðmunda Steingrímsdóttir, Pálína Skjaldardóttir og Kolbrún Sigurpálsdóttir.

 

Nú verður sú breyting á að Alzheimersamtökin ætla á þessu hausti að taka yfir Alzheimerkaffi sem mun verða í svipuðum anda og verið hefur og haldið á sama stað: Hæðargarði 31. 1. fimmtudag í mánuði.

 

Viljum við færa öllum þeim sem lagt hafa starfseminni lið hjartans þakkir fyrir ómetanlegt framlag.
Alzheimersamtökin, Reykjavíkurbog, Sjúkraliðafélg Íslands, sjálfboðaliðar, fyrirlesarar og fjölmörg fyrirtæki gerðu það að verkum að hægt var að halda þessar samverustundir undanfarin fjögur og hálft ár.

 

Einnig viljum við þakka öllum gestunum fyrir komurnar og ánægjulegar samverustundir.
Það er góð tilfinning að vita að Alzheimerkaffi mun dafna í góðum höndum Alzheimersamtakanna.

 

Sjáumst á Alzheimerkaffi næsta fimmtudag 7. september.

 

Guðmunda, Pálína og Kolbrún

Uppskeruhátíð hlaupara 2017

30/08/2017

Fimmtudaginn 24. ágúst síðastliðinn buðum við þeim sem hlupu fyrir okkur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2017 og fjölskyldum þeirra til grillveislu í stóra salnum í húsnæði okkar í Hátúni 10 í Reykjavík. Það var afar ánægjulegt hve margir sáu sér fært að líta við, fá sér grillaða pylsu, spjalla og leika sér. 

 

Hlaupahóparnir okkar Stingum af og Gleymum ekki gleðinni fengu báðir viðurkenningu og glaðning en samanlagt söfnuðu þeir tæplega einni og hálfri milljón króna fyrir Alzheimersamtökin í maraþoninu. 

 

Áheitakóngurinn, sá einstaklingur sem safnaði mestu, fékk líka viðurkenningu og glaðning. Fjórða árið í röð var það Magnús Andri Hjaltason sem safnaði mestu eða rúmum 200.000 krónum. Hann tilheyrir jafnframt hlaupahópnum Stingum af


Myndir frá uppskeruhátíðinni má skoða á Facebook með því að smella hér. 

Alzheimersamtökin þakka frábæra þátttöku og söfnun í maraþoninu í ár og vonast til að sjá sem flesta á hlaupaskónum í ágúst á næsta ári. 

20
sep

Listir og menning sem meðferð: Íslensk söfn & Alzheimer

20/09/2017
kl. 13:00 - 17:00

Staðsetning

Tjarnarsalur Ráðhússins í Reykjavík og Listasafn Íslands

Tími

Kl. 13:00 - 17:00

Stutt lýsing

Málþing og smiðjur.
Tjarnarsal Ráðhússins kl. 13:00–15:00 og í Listasafni Íslands kl. 15:00–17:00

Takið dagana frá. Við hlökkum til að hitta ykkur !

Á málþinginu 20. september verður kynning á bókinni Listir og menning sem meðferð: íslensk söfn og Alzheimer. Í henni eru kynntar hugmyndir um hvernig nýta megi listir til að auka lífsgæði fólks með alzheimer og bæta og treysta samband þess við ástvini sína. Alzheimer sviptir einstaklinginn smám saman sjálfsmeðvitundinni en með hjálp lista má að einhverju leyti endurheimta hana. Myndlist og íslenskur menningararfur geta þannig virkjað hugmyndaflugið, tilfinningaminnið og getuna til að eiga í félagslegum samskiptum.

Frummælendur á málþinginu verða:
• Francesca Rosenberg deildarstjóri Fræðsludeildar MoMA-listasafnsins í New York, USA


• Jón Snædal forstöðumaður Minnismóttöku Landakots, Landspítali Íslands


• Carmen Antúnez Almagro taugasérfræðingur og forstöðumaður Minnismóttöku Háskólasjúkrahússins Virgen de la Arrixaca í Murcia á Spáni


• Javier Sánchez Merina arkitekt og dósent við arkitektadeild háskólans í Alicante á Spáni


• Sigurjón Baldur Hafsteinssona prófessor safnafræða við Háskóla Íslands


• Halldóra Arnardóttir, listfræðingur, stjórnandi verkefnisins og ritstjóri bókarinnar

Erindi málþingsins verða flutt í Tjarnarsal ráðhússins en síðan flytjum við okkur yfir Fríkirkjuveginn í Listasafn Íslands. Þar geta gestir tekið þátt í smiðjum sem tengjast sýningunum Fjársjóður þjóðar og Taugafold VII / Nervescape VII og leitað svara við því hvernig við skoðum listir og hluti, hvaða tengingar myndast við þá og hvernig þær myndast, í samhengi við alzheimer-sjúkdóminn. Þátttakendum verður skipt niður í hópa þannig að allir geti tekið þátt í öllum smiðjunum. Unnið verður með myndlist, arkitektúr, bókmenntir og tónlist.

Málþingið er opið starfsmönnum safna, þeim sem vinna við dagþjálfun og á dagvistunarheimilum, kennurum og nemendum á framhalds- og háskólastigi og auðvitað listamönnum úr ólíku starfsumhverfi og öðrum úr skapandi greinum.

Bókin Listir og menning sem meðferð: íslensk söfn og Alzheimer verður til sölu á málþinginu en hana verður líka hægt að kaupa í forsölu sem kynnt verður síðar. Háskólaútgáfan gefur bókina út.

Þátttaka er endurgjaldslaus, þökk sé styrktaraðilunum FÍSOS, Landspítala Íslands, Háskóla Íslands, Alzheimersamtökunum, Listaháskóla Íslands, Reykjavíkurborg og Listasafni Íslands. Skráning þátttöku er þó nauðsynleg.

Skráning á málþingið: Smellið hér. 

21
sep

Alzheimerdagurinn 2017

21/09/2017
kl. 16:30 - 18:30

Staðsetning

Grand Hótel Reykjavík

Tími

Kl. 16:30 - 18:30

Stutt lýsing

21. september er alþjóðlegi Alzheimerdagurinn. Líkt og fyrri ár munu Alzheimersamtökin standa fyrir málþingi í tilefni dagsins. Yfirskrift málþingsins í ár er Listir og heilabilun. Málþingið er hluti af Alzheimervikunni sem er samstarfsverkefni Minnismóttöku LSH og Listaháskóla Íslands. Fleiri viðburðir um listir og heilabilun verða vikuna 16.-20. september sem vera nánar auglýstir síðar. Takið dagana frá. Hlökkum til sjá ykkur. 

 

Viðburðurinn á Facebook

26
sep

Samverustund að kvöldi

26/09/2017
kl. 19:30 - 21:00

Staðsetning

Hátúni 10, 105 Reykjavík

Tími

Kl. 19:30 - 21:00

Stutt lýsing

Mánaðarlegar samverustundir að degi fyrir aðstandendur fólks með heilabilun.

Aðstandendur eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en á það sameiginlegt að eiga ástvin heima, í dagþjálfun eða á hjúkrunarheimili.

Markmiðið með samverunni er að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu. Allir aðstandendur fólks með heilabilun eru hvattir til að koma og spjalla. Ekki þarf að skrá sig og aðgangur er ókeypis.

05
okt

Alzheimer kaffi

05/10/2017
kl. 17:00 - 18:30

Staðsetning

Félagsmiðstöðin Hæðargarði 31

Tími

Kl. 17:00 - 18:30

Stutt lýsing

Spjall - fræðsla - kaffi/meðlæti - söngur m/undirleik.
Aðgangseyrir 500 kr. kaffi innifalið.
Ekki þarf að skrá sig bara mæta á staðinn.

Guðmunda Steingrímsdóttir, Pálína Skjaldardóttir og Kolbrún Sigurpálsdóttir koma og segja frá stofnun Alzheimer kaffis í Reykjavík og fyrstu starfsárum þess. 

VEFTRÉ
W:
H: