Dagskrá september 2024

1. september 2024

Ágúst er senn á enda og haustið á næsta leiti. Reykjavíkurmaraþon þessa árs er liðið, en fyrir marga er það hápunktur sumarsins enda stemningin sem fylgir þessum viðburði alveg einstök. Bæði á meðal hlauparanna sjálfra og allra þeirra sem standa á hliðarlínunni og hvetja fólk áfram - áfram við öll!

Við hjá Alzheimersamtökunum viljum koma á framfæri innilegum þökkum til allra þeirra sem hlupu í okkar nafni og þökkum öllum þeim sem styrktu samtökin með áheitum og frjálsum framlögum. Þessi einstaki viðburður er okkar helsta tekjulind og hefur aldrei áður safnast jafn há upphæð og safnaðist í ár. Þátttaka er því gríðarlega mikilvæg og gerir okkur kleyft að starfa áfram í þágu okkar allra. Stakir hlauparar, kærar þakkir fyrir ykkar framlag. Hlaupahópar af ýmsum toga; vinnufélagar, fjölskyldur, vinir, þjónustuþegar Seiglunnar, kærar þakkir fyrir ykkar framlag.

Þið eruð einfaldlega best 💜💜💜

Það er heilmikið framundan hjá Alzheimersamtökunum í september og eru viðburðir auglýstir sérstaklega á heimasíðunni okkar, en meðal annars má nefna eftirfarandi:

  • Fyrsta Alzheimerkaffi haustsins fer fram þann 5. september, kl. 17:00-18:30 og hittist svo á að það verður haldið bæði í Hæðargarði 31 í Reykjavík og í safnaðarheimili Akureyrarkirkju á sama tíma.
  • Ráðstefna Alzheimersamtakanna: “Taktu málin í þínar hendur” verður haldin á Alþjóðlega Alzheimerdaginn þann 21. septemer frá kl. 12:30-15:30 í salnum Háteig á Hótel Grand Reykjavík í Sigtúni 28. Góður hópur fyrirlesara verður á ráðstefnunni og má meðal annars geta þess að einn okkar fremsti fræðimaður í málefnum fólks með heilabilun Teepa Snow mun flytja erindi. Teepa Snow MS, OTR/L, FAOTA er iðjuþjálfi með yfir fjörutíu ára fjölbreytta klíníska og fræðilega reynslu og sérfræðingur í umönnun fólks með heilabilun.
  • Teepa Snow mun einnig vera með námskeið í jákvæðri nálgun í umönnun fólks með heilabilun í Hafnarfirði og á Akureyri á meðan á dvöl hennar stendur.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með viðburðum og fréttum á heimasíðu okkar þar sem allar helstu upplýsingar koma fram og hvetjum ykkur einnig til að mæta og taka þátt.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?