Fræðsluferð um Suðurlandið
10. mars 2025
Mikilvægur hluti af starfi Alzheimersamtakanna er að fræða landsmenn um heilabilunarsjúkdóma og þjónustu samtakanna. Reglulega förum við því í fræðsluferðir á landsbyggðina til að miðla þekkingu og styðja við aðstandendur og fagaðila.
Fyrsti áfangastaður – Árborg
Nýverið lögðu Ásta Kristín Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi samtakanna, og Thelma Jónsdóttir, fræðslustjóri, af stað í tveggja daga fræðsluferð austur fyrir fjall. Fyrsta stopp var í Árborg, þar sem þær héldu erindi fyrir starfsfólk í félagslegri heimaþjónustu og mikilvæg umræða myndaðist. Að því loknu áttu þær góða stund með aðstandendum einstaklinga með heilabilun sem sækja dagdvöl í Vinaminni.
Hlýjar móttökur á Hellu
Næst héldu Ásta Kristín og Thelma á fund hjá kvenfélaginu Unni á Hellu, sem bauð einnig öðrum áhugasömum að mæta. Fundurinn var vel sóttur en kvenfélagið lauk fundinum með rausnarlegri peningagjöf til Alzheimersamtakanna að upphæð 100.000 krónur. Við kunnum þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn, hann mun nýtast vel í starfi samtakanna.
Stracta Hótel á Hellu bauð okkur svo að dvelja hjá sér án endurgjalds, sem við þökkum kærlega fyrir. Slík gestrisni og velvild er ómetanleg í okkar starfi.
Fræðsla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Ferðinni lauk með fræðslu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem við áttum góða stund með vasklegum hópi úr Félagi eldri borgara í hreppnum og nágrenni.
Við þökkum öllum sem tóku á móti okkur og hlýddu á okkur í þessari ferð. Það var ánægjulegt að finna fyrir áhuga og þakklæti, sem er góð hvatning í okkar mikilvæga starfi.
Aukin þekking og skilningur
Fræðsla eykur þekkingu og skilning á heilabilunarsjúkdómum, sem er lykilatriði í því að draga úr fordómum í samfélaginu. Ef áhugi er á að fá fræðsluerindi frá Alzheimersamtökunum, er velkomið að hafa samband í gegnum netfangið alzheimer@alzheimer.is