Vel sóttur fyrirlestur um erfðamál
12. mars 2025
Hvenær á að huga að erfðamálum? Hvað gerist ef ég geri ekkert? Þetta voru aðeins tvær af spurningunum sem Elín Sigrún lögmaður fjallaði um í fyrirlestri sínum "Hvað verður um eignir mínar eftir minn dag" sem hún hélt hjá okkur í vikunni.
Hún lagði áherslu á að þótt enginn viti framtíðina, sé skynsamlegt að vera undirbúinn og að rétti tíminn til að huga að erfðamálum gæti verið fyrr en margir halda.
Mikilvægi hjúskaparstöðu og fjölskylduaðstæðna
Elín Sigrún ræddi hvernig hjúskaparstaða og fjölskylduaðstæður geta haft veruleg áhrif á erfðamál. Til dæmis gilda ólík lög eftir því hvort viðkomandi sé í hjónabandi, sambúð eða einhleypur. Þá skipti einnig máli hvort einstaklingur eigi börn úr fyrri samböndum og hvort erfðaskrá hafi verið gerð áður.
Góð þátttaka og líflegar umræður
Fjölmargir mættu á fyrirlesturinn, bæði í salnum og í beinu streymi. Mikill áhugi var á efninu og töluvert um spurningar í lokin. Það er ljóst að margir juku á vitneskju sína og sumir jafnvel staðráðnir í að setja erfðaskrármál á dagskrá.
Upptaka fyrir þá sem misstu af
Við þökkum Elínu Sigrúnu innilega fyrir fróðlegan og vel framsettan fyrirlestur. Þeir sem komust ekki á fundinn geta horft á upptökuna með því að smella á hlekkinn hér að neðan.