Hvernig líður þér á safni?

22. október 2024

Safnafræði við Háskóla Íslands býður áhugasömum að taka þátt í umræðu um vellíðan á söfnum í Listasafninu á Akureyri, 1. nóvember frá klukkan 14:00 – 15:30.

Vonast er til að þátttakendur taki virkan þátt í umræðunum, deili reynslu sinni og hlusti á sjónarmið annara. Allt til að læra af lífssögu fólks og sú lífssaga verði söfnum til góðs. Spurt verður: Í hverju felst vellíðan? Hvað er það á safni sem lætur okkur líða vel? Hvaða safn er þér minnistætt sem þér hefur liðið vel á, hér á landi eða erlendis?

Tilgangurinn er að byggja upp enn frekara traust í söfnum og hlúa að vellíðan bæði gesta og allra starfsmanna. Söfn geta stuðlað að auknum lífsgæðum fólks með starfsemi sinni og eru kjörinn vettvangur til tengslamyndunar og samræðna án fordóma.

Samtalið er liður í þátttöku Háskóla Íslands í evrópska Erasmus+ samstarfsverkefninu Inclusive museums for well-being and health through the creation of a new shared memory (Inclusive memory). Óskað verður eftir að viðburðurinn verði tekinn upp og verði hluti að svokallaðri „dagbók minninganna“ sem tilheyrir verkefninu.

Í þessu samhengi höfum við sérstakan áhuga á að heyra frá reynslu innflytjenda, þeirra sem búa við alzheimer-sjúkdóminn, eru á einhverfurófinu, eru sjón-eða heyrnaskertir eða eru á einhvern hátt að glíma við félagslegar áskoranir - sem og þeirra sem hafa unnið með þessum hópum.

Viðburðurinn er tengdur mótun MOOC-námskeiðs sem Inclusive memory verkefnið undirbýr. Námskeiðið kynnir starfsfólki safna, umönnunaraðilum, kennurum og heilbrigðisstarfsfólki hugmyndina um söfn sem staður án aðgreiningar. Námskeiðið byggir á félagslegu líkani fötlunar og hönnun fyrir alla-nálgun (4all). Allir hafa jafnan rétt á menningarstarfsemi og heimsóknum á söfn. Nemendur námskeiðsins velta fyrir sér; hvernig hægt er að byggja upp samræður og traust tengsl sem leiða til þátttöku; hvernig söfn kynna menningararfleifð; og hvernig tilteknir hópar fólks kynna sig á safni þegar þeir eru meðhöfundar skipulagðra safnaheimsókna.

Fyrir hönd skipuleggjenda og þátttakenda Inclusive memory verkefnisins á Íslandi, Sigurjón Baldur Hafsteinsson, Prófessor sbh@hi.is Halldóra Arnardóttir PhD listfræðingur: halldorarnar@hi.is

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?