Yfirlýsing vegna úrræða fyrir einstaklinga með heilabilun
6. nóvember 2024
Alzheimersamtökin lýsa yfir áhyggjum af stöðu úrræða fyrir einstaklinga með heilabilun. Viðeigandi úrræði eru þeim gríðarlega mikilvæg og að samfella sé á milli úrræða eftir því sem sjúkdómurinn ágerist. Hvert úrræði er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem úrræðin mynda og líkt og aðrar keðjur eru þær ekki sterkari en veikasti hlekkurinn.
Í dag eru um 60 einstaklingar á biðlista eftir plássi í Seigluna sem er fyrsta úrræði fyrir einstaklinga sem eru skammt á veg komnir í sínum heilabilunarsjúkdómi, á meðan fólk bíður veikist það hraðar og oft á tíðum orðið of veikt þegar það kemur að því á biðlistanum. Þetta er óviðunandi þjónusta og hafa Alzheimersamtökin óskað eftir fjármagni til reksturs á nýrri Seiglu en ekki fengið.
Það úrræði sem tekur við eftir Seigluna er sérhæfð dagþjálfun og er staðan sú að þar eru skjólstæðingar sem þarfnast hjúkrunarrýmis en fá ekki vegna of fárra hjúkrunarrýma. Þetta veldur keðjuverkun þannig að í öllum úrræðum er fólk sem þarfnast meiri þjónustu en það fær.
Á dögunum var tekin ákvörðun um að loka úrræði fyrir einstaklinga með heilabilun í Roðasölum í Kópavogi og munu skjólstæðingar verða færðir þaðan í hjúkrunarrými á Hrafnistu þegar þau losna, við það tapast 10 hjúkrunarrými. Til viðbótar við þetta sjáum við fréttir af uppsögn sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu á samningi um rekstur hjúkrunarheimilisins Sæborgar á Skagaströnd og óvíst hvað tekur við. Ef ekki verður brugðist við tapast önnur 10 hjúkrunarrými.
Alzheimersamtökin lýsa yfir áhyggjum af stöðunni og hvetja stjórnvöld til þess að bregðast hratt við þessari alvarlegu stöðu með því að fjármagna rekstur nýrrar Seiglu og tryggja að einstaklingar með heilabilun hafi aðgang að hjúkrunarrými þegar þörf krefur.
Stjórn Alzheimersamtakanna