RÁÐGJAFASÍMINN
520 10 82
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
STYRKJA SAMTÖKIN
HEILAVINUR
Innkaupakerra
Sjúkdómsferlið

Hvers má vænta?

Ekki er mögulegt að gefa upp nákvæmlega hvernig heilabilunarsjúkdómar þróast. Hver einstaklingur sem veikist hefur einstakan persónuleika og því illmögulegt að segja til um hvaða breytingar munu eiga sér stað, í hvaða röð og á hvaða tíma. Í fræðunum er talað um allt frá þrem stigum sjúkdómsins upp í sjö. Afar misjafnt er hvaða flokkun er notuð en allar lýsa þær ákveðinni færniskerðingu sem á sér stað hjá einstaklingnum eftir því sem stærri svæði heilans veikjast.

Framgangur sjúkdómsins getur verið misjafnlega hraður milli einstaklinga. Ekki er lengur gefinn upp áætlaður líftími og sumir lifa með heilabilun í yfir 20 ár. Vegna þess hve margir þættir í umhverfi, persónu og heilsu fólks hafa áhrif á þróun sjúkdómsins er ekki hægt að gefa út nákvæma lýsingu á því hvernig er að veikjast af heilabilunarsjúkdómi.

Mikilvægt er að hafa í huga að breytingar í heilanum hafa byrjað að eiga sér stað löngu áður en viðkomandi fær greiningu. Því er oft talað um sjúkdóminn fyrir og eftir greiningu. Sjúkdómurinn getur verið á misjöfnum stigum þegar fólk greinist og því greiningin ekki endilega fastur punktur heldur aðeins tímapunktur í ferli hvers og eins.

Einstaklingurinn

Eitt það mikilvægasta sem þarf að muna í tengslum við heilabilunarsjúkdóma er að manneskjan sem við elskum og þekkjum fer ekki neitt. Hún veikist. Hún er enn hún sjálf og á enn skilið alla þá virðingu sem við höfum hingað til sýnt henni. Margar breytingar eiga sér stað í kjölfar þess að veikjast af heilabilun en nauðsynlegt er að hafa í huga að það eru ekki aðeins breytingar á heilavef sem gera hinum veika erfitt fyrir. Viðbrögð umhverfisins eru lykilatriði. Aðstandendur og fagaðilar sem starfa við umönnun eru oftar en ekki uppteknir af þeirri skerðingu sem sjúkdómarnir hafa í för með sér og gleyma að virkja og njóta þeirra færni sem enn er til staðar.

Sjúkdómurinn er þarna, en hann má ekki yfirskyggja þá persónu sem einstaklingurinn sannarlega er.


Alzheimersamtökin vinna eftir hugmyndafræði Tom Kitwood, þar sem einstaklingurinn er ávallt í öndvegi.

VELLÍÐAN er markmið allrar umönnunar, heima og að heiman.

Persónustyrkjandi umönnun viðheldur vellíðan.

Þarfir fólks með heilabilun

Einstaklingur með heilabilun þarfnast:

 • huggunar í formi umhyggju, nærveru, linun sársauka, angistar og sorgar.
 • að upplifa það öryggi og þá ró sem skapast við nálægð við aðra manneskju.
 • annarrar manneskju sem sér um að halda heildaryfirsýn, þegar hann sjálfur ræður ekki við það.
 • að mynda tengsl sem hefur þann tilgang að finna sig öruggan.
 • að finna að hann tilheyri hópnum og er hluti af einhverju stærra og meira.
 • að taka þátt í virkni sem hefur tilgang, virkni þar sem hann getur nýtt eigin úrræði og krafta og sem byggir á eigin lífssögu.
 • að hafa óbrotna sjálfsmynd, að vita hver hann er - að geta sagt öðrum lífssögu sína.


Góð umönnun

Góð umönnun er grundöllur þess að fólki með heilabilun líði vel. Eftirfarandi atriði er æskilegt að hafa að leiðarljósi við alla umönnun, hvort sem hún er formleg eða óformleg.

 • Að viðurkenna einstaklinginn eins og hann er.
 • Að óskir og þarfir hans séu ætíð í öndvegi.
 • Að þekking og frumkvæði hans sé nýtt.
 • Að hann fái möguleika á að sýna frumkvæði og tjá eigin skoðanir.
 • Að hann fái hvatningu sem byggir á skynupplifunum.
 • Að hann upplifi hápunkta í hversdagleikanum.
 • Að hann fái möguleika á að slappa af.
 • Að viðurkenna að tilfinningar hans eru raunverulegar og bregðast við þeim.
 • Að umönnunaraðilar geti mætt honum í því ástandi sem hann er.
 • Að hann fái möguleika á að gera það sem hann sjálfur gjarnan vill gera.
VEFTRÉ
W:
H: