50. pistill: Ný lyf við Alzheimer sjúkdómi, hver er staðan?
Sjúklingar með Alzheimer sjúkdóm og fjölskyldur þeirra bíða með nokkurri óþreyju eftir að ný lyf við sjúkdómnum verði fáanleg hér á landi enda hafa verið skapaðar væntingar. Staðan er sérkennileg. Þegar eru komin tvö ný lyf á markað í Bandaríkjunum. Öðru var hafnað í Evrópu en hitt er enn í vinnslu. Lyf er einnig komið á markað í Japan og Suður-Kóreu sem og í fáeinum öðrum löndum. Í Ástralíu var umsókn um skráningu hins vegar hafnað nú í október en í Bretlandi var sama umsókn samþykkt en niðurgreiðslu hafnað. Það er erfitt að vita hver framvindan verður og eitthvað hefur verið um að sjúklingar frá Evrópu hafi farið til Bandaríkjanna til meðferðar en þá þarf að greiða allt úr eigin vasa.
Umsókn um skráningu lyfsins lecanemab var sem sagt hafnað af EMA, Evrópsku lyfjastofnuninni seint í sumar en niðurstaðan er í áfrýjunarferli og er endanlegs svars að vænta snemma vetrar. Þessi staða var rædd á ráðstefnu um rannsóknir á Alzheimer sjúkdómi (CTAD =Clinical Trials in Alzheimer´s Disease) sem haldin var í Madrid dagana 29. Október til 1. Nóvember. Líklegt þykir að lyfið sem EMA er með til endurskoðunar muni fá samþykki fyrr eða síðar en vel hugsanlegt að það verði ekki í þetta sinn heldur í kjölfar næstu umsóknar.
Umrædd ráðstefna er árviss viðburður en umfjöllunarefnin hafa tekið miklum breytingum undanfarin áratug. Í upphafi hans voru flestir fyrirlestrar um aðferðir til að greina sjúkdóminn og fylgjast með framvindu hans en fyrirlestrar um ný lyf voru fáir. Menn báru sig samt vel þá og héldu í bjartsýnina þótt á móti blési þar sem hvert lyfið á fætur öðru “féll”, þ.e. sýndi ekki árangur.
Á ráðstefnu þessa árs var annað upp á teningnum:
Það ríkir því meiri bjartsýni en áður um að á næsta áratug muni nokkur lyf hljóta endanlegt brautargengi og muni þá nýtast stórum hluta þeirra sem eru með þennan erfiða sjúkdóm. Innleiðsla nýrra lyfja gæti þó orðið hæg og aðeins nýtast fáum til að byrja með.