52. pistill: Getur bólusetning komið í veg fyrir heilabilun?
Það er engin bólusetning í boði sérstaklega gegn heilabilun en það hafa verið hugmyndir um að vissar tegundir bólusetninga gætu haft jákvæð áhrif, einkum þær sem gefnar eru á seinni æviskeiðum. Nú hefur verið birt stór rannsókn í tímaritinu Nature sem skoðaði hvort þetta gæti átt sér stað1 í tilfelli bólusetningar gegn hlaupabólu. Veiran sem veldur hlaupabólu, herpes zoster, getur legið í dvala í líkamanum í áratugi en komið svo upp aftur og valdið útbrotum sem kallast ristill. Auk útbrotanna fylgja oft töluverðir verkir og því getur ástandið verið mjög erfitt. Til eru krem og töflur sem geta hjálpað en ef meðferðin er ekki notuð strax hefur hún takmörkuð áhrif.
Skoðaðar voru bólusetningar í Wales á Bretlandseyjum en þar var ákveðið árið 2013 að gefa öllum sem fæddir voru eftir 2. September 1933 kost á bólusetningu gegn ristli. Nú hafa verið skoðaðir tveir hópar einstaklinga sem annars vegar voru fæddir vikuna fyrir þessa tímasetningu og hins vegar þeir sem fæddir voru vikuna á eftir. Þetta urðu þannig tveir hópar fæddir með minna en tveggja vikna bili og því í raun jafnaldra.
Eldri hópurinn fékk ekki kost á bólusetningu þótt frá því hafi verið einstaka undantekningar en í heildina voru þeir aðeins 0.01% af öllum hópnum. Meðal yngri hópsins fengu hins vegar tæplega helmingur allra bólusetninguna eða liðlega 47% enda var gert sérstakt átak til að hvetja fólk til að láta bólusetja sig. Svo var skoðað hversu margir greindust með heilabilun á næstu sjö árum og voru teknir frá þeir sem þegar voru komnir með þá greiningu við bólusetningu. Í ljós kom að þeir sem fengu bólusetningu voru 20% ólíklegri að fá heilabilun samkvæmt skráningum en hinir og var það marktækur munur. Rannsakendur bættu svo við upplýsingum frá öðrum hlutum Bretlandseyja og komust að svipaðri niðurstöðu þótt aðferð við útreikninga væri nokkuð önnur.
Þetta er ekki fyrsta rannsóknin sem hefur sýnt þessi áhrif bólusetninga gegn ristli því rannsókn sem birtist í júlí á síðasta sumri sýndi svipuð áhrif þótt aðferðafræðin væri ekki sú sama2.
Af hverju ætti bólusetning gegn ristli að hafa þessi áhrif? Menn telja ekki að veiran sjálf skipti hér máli. Þeir sem fá hlaupabólu á unga aldri virðast ekki vera í meiri hættu að fá heilabilun. Veiran liggur í dvala í taugakerfinu og blossar upp sem ristill með töluverðri bólgu í taugunum (þannig koma verkirnir) og í húðinni og ef komið er í veg fyrir bólguna minnki áhætta á skemmdum í taugafrumum. Það er í takt við hugmyndir um að bólgusvörun (bólga sem myndast í kjölfar áreitis svo sem sýkingar) hafi slæm áhrif á taugafrumur í heila og auki áhættu á heilabilun.
Rannsóknin gerði ekki greinarmun á Alzheimer sjúkdómi og öðrum orsökum heilabilunar því höfundar segja að greiningin sé ekki nægilega nákvæm, a.m.k. ekki á þessu landsvæði. Þar sem Alzheimer sjúkdómur er langsamlega algengasta orsök heilabilunar er varla þó mögulegt að jákvæð áhrif bólusetningar séu mælanleg nema fyrir áhrif á Alzheimer sjúkdóm.
Það virðist því vera vel staðfest að bólusetning gegn ristli geti minnkað áhættu á heilabilun eða a.m.k. seinkað ástandinu og ætti það að vera frekari hvatning til að láta bólusetja sig gegn ristli en slík bólusetning er í boði hér á landi.