Stuðningshópar
Aðstandendur eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en eiga það sameiginlegt að eiga ástvin heima, í dagþjálfun eða á hjúkrunarheimili.
Hóparnir byggjast á hugmyndafræði jafningjastuðnings og er markmiðið með samverunni að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu.
Hver stuðningshópur hittist einu sinni í mánuði og eru dagsetningar auglýstar á viðburðasíðunni okkar sem og á Facebook. Við erum með fjóra mismunandi hópa aðlagaða eftir þörfum aðstandenda.
Tegundir stuðningshópa
- Fyrir aðstandendur fólks með heilabilun
- Fyrir fólk sem á foreldra með heilabilun
- Fyrir fólk sem á maka með heilabilun á hjúkrunarheimili
- Rafrænn stuðningshópur fyrir aðstandendur fólks með heilabilun
Umsjón með hópum
Katrín Mjöll Halldórsdóttir sálfræðingur hefur umsjón með stuðningshópum Alzheimersamtakanna sem eru haldnir hjá okkur í húsi. Hún er með meistaragráðu í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Þá er hún ein af þáttastjórnendum hlaðvarpsins Kvíðakastið og kemur einnig að kennslu í grunn- og meistaranámi við ýmsa háskóla, ásamt því að leiðbeina í BSc lokaverkefnum.
Anna Sigga Jökuls Ragnheiðardóttir sálfræðingur hefur umsjón með rafræna stuðningshópnum. Hún hefur starfað sem klínískur sálfræðingur í 15 ár. Lengst af á öldrunardeildum LSH, krabbameinsfélaginu Krafti og Kvíðameðferðarstöðinni. Þar hefur hún sinnt mati og meðferð meðal annars í tengslum við langvinn veikindi, streitu, áföll, kvíða og lágt sjálfsmat.