Alþjóðlegur Alzheimerdagur - Ráðstefna
"ER MAMMA BARA MEÐ HEILABILUN ÞRJÁ DAGA Í VIKU?" Úrræði og þjónusta við fólk með heilabilun á landsvísu. Fundarstjóri er Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður Alzheimersamtakanna. Í tilefni af alþjóðlegum Alzheimerdegi halda Alzheimersamtökin ráðstefnu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Hvetjum alla til að taka daginn frá. Ráðstefnan er ókeypis og í beinu streymi, upptökur aðgengilegar eftir streymið.
Menningarhúsið Hof Akureyri
kl 13:00 - 16:00
Fyrirlestrar dagsins
„Seiglan, bylting í þjónustu við einstaklinga með heilabilun“?
Guðlaugur Eyjólfsson framkvæmdastjóra Alzheimersamtakanna. Hann starfaði lengst af hjá Símanum sem forstöðumaður en síðast hjá Janusi heilsueflingu. Er háskólamenntun í heilbrigðisvísindum, mannauðsstjórnun og uppeldis- og menntunarfræðum.
Að sjá tækifærin í nærumhverfinu
Laufey Jónsdóttir Jónsdóttir forstöðumaður stuðnings og stoðþjónustu, tengill Alzheimersamtakanna á Akranesi. Fyrirlesturinn fjallar um hvernig hægt er að sjá tækifæri til að veita fólki með heilabilun þjónustu í nærumhverfi sínu. Um er að ræða verkefni þar sem fólk fékk samþykkta liðveislu. Erfiðlega gekk að fá starfsmenn í það verkefni en þá var ákveðið að samnýta starfsmenn og bjóða fleirum að taka þátt. Boðið var upp á þjónustu alla miðvikudaga eftir kl. 16.00 og laugardaga frá kl. 13.00-17.00.
Austrið er rautt og heilabilun
Arnþór Helgason, vinátturáðherra. Viðtal við Arnþór sem er félagsmaður Alzheimersamtakanna sem tekið upp í byrjun september 2023 í húsakynnum samtakanna.
Hvað segiði, eigum við að fara á Greifann?
Dagný Björg Gunnarsdóttir og Hera Kristín Óðinsdóttir, aðstandendur.
„Við systur búum á Akureyri og fær móðir okkar staðfestingu á greiningu fyrir Alzheimer í júní 2022. Við gerum okkar besta í að aðstoða foreldra okkar og hvor aðra í gegnum hvert skref. Það er vissulega ólíkt að fá hjartabilun eða heilabilun en okkur óraði aldrei fyrir þessum mun innan kerfisins. Okkar upplifun er svolítið eins og okkur hafi verið kastað í djúpu laugina en það hafi gleymst að blása í kútana. Í erindi okkar á ráðstefnunni munum við fjalla um upplifun okkar af því að fá greiningu staðfesta og tíminn eftir greiningu“.
Týnd í umskiptum og samskiptum þegar maki hverfur vegna heilabilunar og flytur á langtímaumönnunarstofnun
Olga Ásrún Stefánsdóttir, iðjuþjálfi og fjölskylduráðgjafi. Olga Ásrún er aðjúnkt við Háskólann á Akureyri. Hún lauk BS gráðu í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri árið 2005 og meistaragráðu í fjölskyldumeðferð frá Háskóla Íslands árið 2015 og fjallaði meistaraverkefni hennar um áhrif starfsloka á hjónabönd. Hún stundar nú doktorsnám í heilbrigðis-og félagsvísindum við Western Norway University of Applied Sciences í Bergen í Noregi. Rannsóknarefni hennar eru eldri hjón sem búa við þær aðstæður að annað þeirra þarf að flytja á hjúkrunarheimili vegna heilabilunar en hinn aðilinn verður eftir heima. Skoðar hún meðal annars hvaða áhrif þetta hefur á daglegt líf hjónanna, heilsu þeirra og samskipti við formleg umönnunarkerfi. Að auki starfar hún sjálfstætt sem fjölskylduráðgjafi og meðferðaraðili við Lausnina-áfalla og fjölskyldumiðstöð þar sem hún leggur áherslu á vinnu með einstaklingum, hjónum/pörum og fjölskyldum.
Ef ég gleymi. Kynning á leiknu fræðsluefni um heilabilun
Sigrún Waage, leikkona og sviðslistakennari. Sigrún Waage útskrifaðist með BFA gráðu í leiklist frá New York University Tisch School of the Arts. Hún er með Diploma í söng, söngkennslu og raddþjálfun frá Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn og M.Art.Ed gráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Ef ég gleymi var hluti af lokaverkefni Sigrúnar í M.Art.Ed við Listaháskóla Íslands vorið 2022. Tilgangur með framkvæmdinni var tvíþættur. Annars vegar að nýta þann miðil sem leikritið er til að fræða og vekja fólk til umhugsunar um Alzheimersjúkdóminn og skapa umræðu um hann. Hins vegar var tilgangur framkvæmdarinnar að fá fram einhverjar vísbendingar um hvort leikritið gæti miðlað fræðslu um Alzheimersjúkdóminn.
Minnismóttaka SAk, reynsla undanfarinna ára
Arna Rún Óskarsdóttir, öldurnarlæknir SAk. Á minnismóttöku SAk fer fram greiningarvinna við grun um heilabilunarsjúkdóma auk ráðgjafar til sjúklinga og aðstandenda.
Er mamma bara með heilabilun þrisvar í viku?
Bergþóra Guðmundsdóttir, Aðstandandi Alzheimer sjúklings Bergþóra er dóttir, móðir, systir, vinkona, eiginkona og svo margt meira. Lengst af hefur Bergþóra starfað sem verslunarstjóri og móttökuritari en er núna starfandi hjá Veislubakstri í safnaðarheimil Akureyrarkirkju.
Nám í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun
Dr. Kristín Þórarinsdóttir, er hjúkrunarfræðingur og dósent við Heilbrigðis- viðskipta og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri. Sérsvið hennar er persónumiðuð nálgun, öldunarhjúkrun og málefni aldraða. Hún var formaður vinnuhóps sem vann skýrslu og námskrá fyrir nám í málefnum fólks með heilabilun sem heilbrigðisráðuneytið styrkti,
Vertu með þín þátttaka skiptir máli. Frábært væri ef þú gætir dreift viðburðinum í þínu nærumhverfi svo flestir geti tekið þátt.