Góð ráð eftir greiningu

1. júlí 2024

Ásta Kristín Guðmundsdóttir er ráðgjafi Alzheimersamtakanna og fær til sín marga einstaklinga í ráðgjöf, einstaklinga með heilabilun, aðstandendur og fagfólk. Hér eru nokkur góð ráð frá henni.

Ég hef unnið sem félagsráðgjafi í 12 ár og í gegnum tíðina hitt mikið af einstaklingum og það er rauður þráður í gegnum þá ráðgjöf sem mig langar að fara yfir og koma með punkta sem gott er að hafa í huga.

Þegar einstaklingur fær greiningu á heilabilun þá er margt sem þarf að huga að. Það að fá ráðgjöf, strax við greiningu, getur skipt sköpum. Það er mikill munur á að koma í ráðgjöf strax eða þegar allt er orðið erfiðara og þyngra.

Samtal

Það er undir einstaklingnum, sem fær greininguna, sjálfum komið hverjum hann segir frá sinni greiningu og hversu mikið hann deilir af sinni sögu. Það eru alls ekki allir sem vilja segja frá og er það í góðu lagi, ég hins vegar mæli með að láta sinn innsta hring vita. Með innsta hring á ég við, sitt nánasta fólk sem viðkomandi er í mestu samskiptum við, svo sem börn, foreldra, maka og nána vini. Hversu mikið er sagt frá, er undir einstaklingnum komið.

Einnig er gott að eiga samtal, á einhverjum tímapunkti, við sitt nánasta fólk um hvað maður sér fyrir sér í framhaldinu EF hlutirnir fara á ákveðinn veg. Þarna er átt við ef taka þarf ákvörðun fyrir viðkomandi einstakling, af því hann getur það ekki sjálfur. Það að eiga samtalið um það auðveldar aðstandanda að taka ákvörðunina því hann er viss um hvað hans einstaklingur vill.

Næstu skref?

Ein af algengustu spurningum sem ég fæ í mínu starfi hjá Alzheimersamtökunum er, nú var þessi einstaklingur í mínu lífi að fá greiningu á heilabilun, hver eru næstu skref? Hvað er gott að hafa í huga í framtíðinni?

Þegar fólk kemur í ráðgjöf, þá fer ég yfir nokkra praktíska hluti með þeim, því það skiptir máli að ná utan um þá strax, því maður veit aldrei ef sá tími kemur að viðkomandi getur það ekki lengur.

Fjármál er stór póstur, enginn getur tekið yfir fjármál hjá öðrum nema með umboði. Því er gott að vera búin að eiga samtal við einhvern í sínu umhverfi um hver ætti að fá umboðið ef til þess kemur að viðkomandi geti ekki sinn fjármálum sínum sjálfur. Gott er að hafa í huga, bæði fyrir einstaklinginn með heilabilun sem og aðstandendur að slíkt umboð nær eingöngu til daglegra fjármála. Ef það þarf að fara í stærri aðgerðir, sem og sölu á fasteignum og slíkt þá þarf stærra umboð sem þarf að þinglýsa.

Fleiri umboð sem hægt er að veita og er einnig gott að huga að eru umboð til að sækja lyf í apótek og fá upplýsingar um lyfseðla viðkomandi í apóteki. Slíkt umboð er hægt að veita í gegnum Heilsuveru. Sé það gert þar í gegn þá birtist þær upplýsingar rafrænt í öllum apótekum á landinu.

Nýjasta er að hægt er að veita öðrum ýmis umboð i gegnum island.is – mínar síður. Það eru mörg skjöl sem eru send þar í gegnum og eingöngu þar, til að mynda frá sjúkratryggingum Íslands, margir lífeyrissjóðir og fleira. Einnig getur maður skoðað hvaða umboð maður sjálfur er með og fyrir hvern.

Farið er inn í mínar síður þess sem veitir umboð, valin er hnappurinn Aðgangsstýring og þar undir er hnappurinn Skrá nýtt umboð valinn. Þá er kennitala þess sem veita á umboðið slegin inn í glugga. Flettigluggi er þar fyrir neðan sem valið er úr hvað viðkomandi mun fá aðgang að. Það þarf að gera sér umboð fyrir hvert og eitt atriði og í sumum tilfellum kemur nýr flettigluggi á næstu síðu sem hægt er að velja frekar úr. Hægt er að veita öðrum umboð þar í gegn fyrir þínum síðum á island.is, Landspítalaappinu (bókaðir tímar, niðurstöður rannsókna og fleira) og Sjúkratryggingum Íslands.

Aðstoð heim

Alveg sama á hvaða stigi viðkomandi einstaklingur með heilabilun er, þá er mikilvægt að opna á þessa umræðu. Því ef til þess kemur að viðkomandi þurfi aðstoð heim þá er gott að vita hvar er sótt um og hvaða aðstoð er hægt að fá. Það þarf ekki að fara djúpt í þessa umræðu, hins vegar er mikilvægt að vita hvert maður þarf að hafa samand ef til þess kemur.

Hægt er að nálgast ýmsar upplýsingar, sem gagnast fólki sem er að eldast, á þessari heimasíðu. Þar er mikið af upplýsingum, bæði almennum en einnig nákvæmari, svo sem upplýsingar um hvað er gott að hafa í huga, lífeyrismál og upplýsingar fyrir aðstandendur svo eitthvað sé nefnt.

Panta tíma í ráðgjöf

Þetta er ekki tæmandi listi um hvað er hægt að sækja ráðgjöf til mín um en þetta eru þeir praktísku hlutir sem gott er að hafa í huga þegar einstaklingur fær greiningu á heilabilun.

Ég sinni ráðgjöf hjá Alzheimersamtökunum og hægt er að panta tíma í ráðgjöf til mín á staðnum, í símtali eða fjarfundi. Til að panta tíma er hægt að hringja í ráðgjafasímann: 520 1082 eða senda tölvupóst á netfangið radgjafi@alzheimer.is

 

Ásta Kristín Guðmundsdóttir

Félagsráðgjafi, MA.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?