Árið 2024 í máli og myndum

17. desember 2024

Árið 2024 hefur verið viðburðaríkt hjá Alzheimersamtökunum.

Verkefnin eru brýn, krefjandi en umfram allt ánægjuleg með allan þann stuðning sem við finnum fyrir frá ykkur fólkinu í kringum samtökin. Einnig er ómetanlegt að finna fyrir þeim velvilja sem er auðsjáanlegur á þátttöku í þeim viðburðum sem við stöndum fyrir. Þátttakan endurspeglar auðvitað líka þá miklu þörf sem er í samfélaginu á aukinni fræðslu og bættri þjónustu við einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra.

Við horfum til baka þakklát og full tilhlökkunar fyrir komandi verkefnum á nýju ári.

Hér að neðan er stiklað á stóru í starfsemi samtakanna á árinu 2024:

Bekkjaganga

Fyrsta Bekkjaganga Alzheimersamtakanna fór fram á árinu þar sem gengið var frá fjólubláa bekknum við Sundhöllina í Hafnarfirði að Lífsgæðasetrinu þar sem samtökin eru til húsa. Það er skemmst frá því að segja að það var frábær mæting og öllum var boðið í kaffi og kleinur á eftir. 

Það er ljóst að þetta er viðburður sem er kominn til vera árlega hér eftir og vonandi á fleiri stöðum.

Alzheimerkaffi

Alzheimerkaffi voru haldin í Hæðargarði í Reykjavík einu sinni í mánuði nema yfir hásumarið og einnig víða um land þar sem sjálfboðaliðar vinna mikilvægt starf í sínu nærumhverfi. 

Alzheimerkaffi er viðburður þar sem fram fer fræðsla, spjall, kaffi, hljóðfæraleikur og gjarnan söngur og er ætlað fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra. Alzheimerkaffi er tilvalinn vettvangur til að hittast og eiga notalega samverustund.

Styrktartónleikar

Styrktartónleikar voru haldnir fyrir fullu húsi í Bæjarbíói í Hafnarfirði þar sem komu fram Friðrik Dór, GDRN, Sigga Beinteins, Jón Ólafs og Hildur Vala, Guðrún Árný og hélt Felix Bergsson utan um þetta allt saman sem kynnir. 

Við erum listamönnunum sem gáfu vinnu sína, gestum og starfsfólki í Bæjarbíói þakklát fyrir að taka þátt í þessu með okkur.

Fræðslustarf

Mikið og öflugt fræðslustarf fór fram á árinu. Fræðslufundir voru haldnir einu sinni í mánuði í Lífsgæðasetrinu þar sem spennandi fyrirlestrum var einnig streymt á alzheimer.is.

Sigurbjörg fræðslustjóri var einnig á ferðinni allt árið að fræða almenning og fagfólk um heilabilun og ýmislegt sem henni tengist. 

Styrktarleikur KRinga

KRingar höfðu samband við okkur og efndu til styrktarleiks fyrir Alzheimersamtökin. Það var leikur KR og Víkinga í Bestu deild karla í knattspyrnu.

Við erum KRingum mjög þakklát en það söfnuðust 2.735.353 kr. sem runnu til Alzheimersamtakanna. 

Sálfræðiþjónusta

Aðstandendur hafa nýtt sálfræðiþjónustuna vel árinu. Brynhildur Jónsdóttir sálfræðingur heldur utan um þjónustuna.

Félagsmenn Alzheimersamtakanna geta pantað viðtal við sálfræðing í síma 533 1088 eða með því að senda tölvupóst á alzheimer@alzheimer.is. Viðtalið kostar 5.000 kr.

Heilavinir

Við fjölguðum Heilavinum (mánaðarlegum styrktaraðilum) um tæplega 1.000 á árinu. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur í fjármögnun á rekstri samtakanna.

Heilavinir styrkja samtökin með mánaðarlegum styrkjum og ákveða upphæðina sjálfir sem skuldfærist sjálfkrafa af korti eða reikningi viðkomandi.

Norrænt samstarf

Alzheimersamtökin eru í norrænu samstarfi við systurfélög á hinum norðurlöndunum og var komið að okkur í ár að halda árlegan fund.

Fundurinn var vel heppnaður og er mikilvægt að skiptast á þekkingu við löndin sem við berum okkur helst saman við. 

Sjálfboðaliðar

Vinnudagur með sjálfboðaliðum eða tenglum Alzheimersamtakanna á landsbyggðunum var haldin í Lífsgæðasetrinu í september.

Alzheimersamtökin eru svo heppin að vera í frábæru samstarfi við fjölda sjálfboðaliða um land allt. 

Vitundarvakning

Alzheimersamtökin framleiddu myndbönd með það að markmiði að vekja athygli á einkennum heilabilunar og mikilvægi þess að þekkja þau svo leitað sé til læknis sem allra fyrst þegar einkenna er vart.

Myndböndin vöktu mjög mikla athygli og fengum við tækifæri til þess að vekja athygli á heilabilun í fjölmiðlum í kjölfarið. 

Smelltu hér að neðan til að horfa á myndböndin

Ráðstefna Alzheimer Europe

Árleg ráðstefna Alzheimer Europe fór fram í Genf þetta árið og voru Alzheimersamtökin þátttakendur þar en Sigurbjörg fræðslustjóri flutti erindi á ráðstefnunni og Harpa forstöðukona Seiglunnar kynnti starfsemi Seiglunnar á veggspjaldi.

Að sækja slíkar ráðstefnur veitir okkur innblástur og hugmyndir um hvernig við getum gert enn betur í okkar starfi.

Ráðgjafarþjónustan

Ráðgjafarþjónustan hefur vaxið og dafnað á árinu undir stjórn Ástu Kristínar sem býður upp á ráðgjöf í Lífsgæðasetrinu, í gegnum síma eða fjarfund fyrir öll sem vilja, endurgjaldslaust.

Ásta Kristín var einnig á ferðinni um landið þar sem hún bauð upp á ráðgjöf.

Hægt er að panta tíma í síma 520 1082 eða í radgjafi@alzheimer.is

Reykjavíkurmaraþon

Reykjavíkurmaraþonið er stór þáttur í starfi samtakanna á hverju ári. Alzheimersamtökin færa öllum sem hlaupa í nafni samtakanna stuttermabol og buff og hvetja hlaupara við Ægisíðuna í hlaupinu sjálfu.

Í ár söfnuðust um 12 m.kr. sem er met í áheitasöfnun. Við erum hlaupurum og þeim sem heita á þá mjög þakklát fyrir stuðninginn. 

Nám í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun

Í haust hófst nám í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun við Háskólann á Akureyri. Það er stórt skref í þeirri vegferð að auka þekkingu á heilabilun á meðal fagfólks.

Alzheimersamtökin eru stolt af því að hafa átt þátt í að koma náminu af stað og er þátttakandi í fræðslu til nemenda á námstímanum. 

Taktu málin í þínar eigin hendur

Á alþjóðlegum degi Alzheimer 21. september stóðu samtökin fyrir ráðstefnunni „Taktu málin í þínar hendur“ á Grand hótel.

Óhætt er að segja að hún hafi heppnast vel en fullt var út úr dyrum og mikill fjöldi fylgdist með áhugaverðum erindum í streymi. 

Nýr verndari

Nýr verndari Alzheimersamtakanna Björn Skúlason maki forseta tók við því hlutverki á árinu af Elizu Reid.

Við þökkum Elizu fyrir frábæran stuðning og hlökkum til að vinna með Birni á næstu árum. 

Stuðningshópar

Stuðningshóparnir okkar voru gríðarlega vel sóttir á árinu og eru nú orðnir fimm, almennur hópur fyrir aðstandendur fólks með heilabilun, fyrir yngri afkomendur, fyrir fólk sem á maka á hjúkrunarheimili, fyrir aðstandendur fólks með Lewy-body sjúkdóminn og loks rafrænn stuðningshópur sem fer fram í fjarfundi.

Hóparnir byggjast á hugmyndafræði jafningjastuðnings og er markmiðið með samverunni að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu.

Kveðjustund

Við kveðjum tvo starfsmenn nú um áramótin en Sigurbjörg Hannesdóttir fræðslustjóri hættir störfum eftir 5 ára starf. Einnig hættir Anna Sigga sálfræðingur störfum þar sem hún flyst búferlum.

Við munum sakna þeirra og þökkum þeim kærlega fyrir samstarfið. 

Nýr fræðslustjóri

Thelma Jónsdóttir mun hefja störf á nýju ári sem fræðslustjóri samtakanna.

Thelma starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar, hún hefur einnig starfað við markaðs- og kynningarmál hjá Háskóla Íslands og fleiri stöðum.

Thelma er með MBA próf frá Háskóla Íslands og MA próf í fjölmiðla- og boðskiptafræði frá Freie Universitat og Humboldt Universitat í Berlín.

Við hlökkum til að vinna með Thelmu á nýju ári. 

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?